Frá árinu 2014 hefur Hjálparstarf kirkjunnar sent 108 milljónir króna til mannúðaraðstoðar við fólk á vergangi innan Sýrlands sem og við stríðshrjáða Sýrlendinga sem hafast við í flóttamannabúðum í nágrannaríkjum, þar á meðal í Jórdaníu þar sem þessi litla stúlka er með fjölskyldu sinni. Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins aðstoðar fólkið sem býr við sára fátækt og á í erfiðleikum með að mæta brýnustu þörfum fyrir mat og skjól.
Hjálparstarf kirkjunnar veitir mannúðaraðstoð í samvinnu við Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF / DWS og systurstofnanir í Alþjóðlegu hjálparstarfi kirkna, ACT Alliance. Bæði samtökin samhæfa mannúðaraðstoð með hjálparstofnunum Sameinuðu þjóðanna og starfa eftir ströngustu stöðlum um faglegt hjálparstarf.
ACT Alliance er samstarfsnet yfir 130 kirkjutengdra hjálparstofnana sem starfa í yfir 120 ríkjum og Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins, LWF / DWS, starfar í umboði 148 kirkjustofnana að mannúðarverkefnum í 25 þjóðríkjum víðs vegar um heiminn.
Á starfsárinu 2019–2020 sendi Hjálparstarf kirkjunnar fjárframlög til mannúðaraðstoðar í Malaví, Jórdaníu, Sýrlandi og í Írak. Utanríkisráðuneytið og Hjálparliðar, reglulegir styrktaraðilar Hjálparstarfsins, standa að baki framlögunum.
Í nóvember 2019 sendi Hjálparstarf kirkjunnar fjárstuðning til ELDS, systurstofnunar í Malaví, sem hefur veitt þúsundum aðstoð eftir að fellibylurinn Ida olli miklum búsifjum í landinu fyrr á árinu. Í Írak ríkir enn neyðarástand vegna átaka innanlands. Hjálparstarf Lútherska heimssambandsins veitir fólki á vergangi og fólki sem hefur snúið aftur heim aðstoð meðal annars við að laga húsnæði, gera við brunna, kamra og aðra hreinlætisaðstöðu. Hjálparstarf kirkjunnar sendi fjárframlag til mannúðarverkefnisins í maí 2020.