Spurningar og svör

Allar spurningar eru velkomnar og sendist á gjofsemgefur@gjofsemgefur.is

Bestu þakkir fyrir hlýhug í garð Hjálparstarfs kirkjunnar. Þú getur skráð þig sem Hjálparliða hér: www.hjalparstarfkirkjunnar.is

Gjafabréfin hér á síðunni lýsa verkþáttum í verkefnum Hjálparstarfs kirkjunnar hvort sem er hér á Íslandi, í þróunarsamvinnu í Eþíópíu og Úganda eða í mannúðaraðstoð sem veitt er stríðshrjáðum og fórnarlömbum náttúruhamfara víða um heim. Verðið á gjafabréfunum eru táknræn. Sala þeirra er aðferð Hjálparstarfs kirkjunnar til að afla fjár til verkefnanna og fræða um áhrif þeirra um leið. 

Hér heima á Íslandi starfa félagsráðgjafar og annað fagfólk Hjálparstarfs kirkjunnar með fólki sem býr við fátækt. Félagsráðgjafarnir veita ráðgjöf og efnislega aðstoð ásamt því að skipuleggja valdeflandi verkefni með fólkinu sem til okkar leitar. Hjálparstarfið leggur áherslu á að aðstoðin nýtist börnum og unglingum sem best. Andvirði gjafabréfanna sem lýsa verkþáttum á Íslandi rennur til þessa starfs.

Á alþjóðavettvangi starfar Hjálparstarf kirkjunnar í samvinnu við systurstofnanir í regnhlífarsamtökunum Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna og með Hjálparstarfi Lútherska heimssambandsins. Bæði samtökin starfa eftir alþjóðlegum stöðlum um faglegt hjálparstarf og vinna í náinni samvinnu við hjálparstofnanir Sameinuðu þjóðanna. Hjálparstarf kirkjunnar fjármagnar verkefni en fagfólk á hverju svæði fyrir sig sér um framkvæmd þeirra. Hjálpargögn eru keypt svo nærri verkefnasvæði sem unnt er.

Við leitumst ávallt við að framkvæma verkefni á skilvirkan hátt þannig að aðstoðin nýtist sem hjálp til sjálfshjálpar. Fólkið sem aðstoðar nýtur er því haft með í ráðum við skipulagningu aðstoðar eins og frekast er unnt.

Hjálparstarf kirkjunnar er sjálfseignarstofnun með rekstrarform félagasamtaka. Við leitum til fyrirtækja, félagasamtaka, stofnana sveitarfélaga og ráðuneyta um stuðning við starfið. Kirkjumálasjóður, sóknir og prestar þjóðkirkjunnar eru öflugur bakhjarl stofnunarinnar en máttarstólpinn undir starfinu eru allur almenningur sem styður starfið með fjárframlagi í söfnunum og með reglulegum stuðningi við starfið sem Hjálparliðar.

Síðast en ekki síst fjármagnar Hjálparstarfið verkefni sín með því að bjóða fólki að styðja starfið með því að kaupa gjafabréf hér á síðunni. Með kaupunum styður þú starfið ekki aðeins með fjárframlagi heldur hjálpar þú okkur við að segja frá starfinu. Það er líka dýrmæt gjöf.

Andvirði gjafabréfsins fer til verkefnisins sem það lýsir að langstærstum hluta. Þegar við auglýsum gjafabréfin til sölu þurfum við að greiða fyrir það. Við leitumst hins vegar við að halda auglýsingakostnaði í lágmarki og reynum að nota hagkvæmar og skilvirkar leiðir til að koma gjöfunum á framfæri. Innan við 8% af öllu söfnunarfé rennur í rekstrarsjóð Hjálparstarfsins.