Saga

Hjálparstarf kirkjunnar fagnaði 50 ára starfsafmæli sem hjálparstofnun á árinu 2020 en á fundi kirkjuráðs þann 9. janúar 1970 var formlega ákveðið að stofna Hjálparstofnun kirkjunnar.

Tildrögin voru þau að þjóðkirkjan hafði árið áður tekið þátt í landssöfnuninni „Herferð gegn hungri” sem var hrundið af stað til styrktar sveltandi fólki í Biafrahéraði í Nígeríu.

Í kjölfarið hvöttu prestar landsins kirkjuna til að koma á legg hjálparstofnun er sinnti hjálparstarfi og líknarmálum á vegum hennar. Þeir ákváðu jafnframt að leggja 1% af launum sínum til hjálparstarfsins.

Séra Jónas Gíslason vígslubiskup var ráðinn framkvæmdastjóri og hóf hann strax að skipuleggja söfnun svo veita mætti fólkinu í Bíafra frekari aðstoð.

Fyrsti stjórnarfundur Hjálparstofnunar kirkjunnar var svo haldinn þann 1. apríl 1970. Síðan þá hefur Hjálparstarf kirkjunnar tekið þátt í mannúðaraðstoð og þróunarsamvinnu víða um heim.

Stofnunin hét upphaflega Hjálparstofnun kirkjunnar en nafni hennar var breytt á starfsárinu 1997 – 1998 enda þótti nýja nafnið – Hjálparstarf kirkjunnar – meira lýsandi.

Í fyrstu var framkvæmdastjóri eini starfsmaðurinn. Starfið óx þó nokkuð hratt og brátt urðu starfsmenn fleiri. Upp úr 1990 jókst mjög stuðningur við einstaklinga á Íslandi vegna atvinnuleysis og fjárhagserfiðleika.

Árið 2002 var ráðinn félagsráðgjafi í fullt starf að undangengnu þróunartímabili. Veitti hann skjólstæðingum ráðgjöf, deildi út efnislegri aðstoð og var talsmaður umsækjendahópsins út á við.

Í júlí 2021 voru starfsmenn tíu talsins: Framkvæmdastjóri, þrír félagsráðgjafar í innanlandsstarfi, skrifstofustjóri og fræðslu- og fjáröflunarfulltrúi. Í Skjólinu störfuðu þá fjórar starfskonur.

Nánar um sögu Hjálparstarfs kirkjunnar má lesa í starfsskýrslum stofnunarinnar.