Snyrtisett

Loading

Með framlagi þínu – hvort sem þú ert gefandi eða þiggjandi þessa gjafabréfs – tryggir þú ungu fólki í fátækrahverfum Kampala tækifæri til betra lífs.

Í höfuðborg Úganda njóta börn og ungmenni sem búa í fátækrahverfum stuðnings svo þau fái lifað mannsæmandi lífi. Eftir ársnám í iðngreinum og lífsleikni fer unga fólkið í starfsnám eða kemur sér upp þjónustubás í borginni. Stúlkurnar velja margar að leggja fyrir sig hárgreiðslu og snyrtingu og við útskrift úr náminu fá þær snyrtisett sem þær geta notað til að afla sér tekna sem duga þeim til framfærslu. Smám saman verður lífsafkoman betri.   

Unglingar í fátækrahverfum fá tækifæri til betra lífs.

Draumar krakkanna í fátækrahverfunum í Kampala virðast ekki stórir – þau dreymir um að lifa því sem við köllum venjulegt líf. Námið í smiðjum UYDEL, samstarfsaðila Hjálparstarfs kirkjunnar, gefur þeim tækifæri til að láta þennan hófstillta draum sinn rætast. UYDEL getur rekið smiðjurnar vegna þess að hjartahlýtt fólk á Íslandi vill gefa unglingunum þetta tækifæri!

Í smiðjunum starfa félagsráðgjafar með unglingum sem hafa ekki getað haldið áfram í skóla sökum fátæktar og búa við ömurlegar aðstæður. Markmiðið er að hjálpa börnum og ungmennum á aldrinum 13–24 ára með því að bjóða þeim upp á ársnám í iðngrein sem þau geta svo notað til að sjá fyrir sér. Líka að unglingarnir taki þátt í uppbyggilegum tómstundum og námskeiðum sem styrkja sjálfsmyndina.

Í jafningjafræðslu eru unglingarnir upplýstir um kynheilbrigði og rétt sinn til heilbrigðisþjónustu. Í Úganda verða stelpur gjarnan mæður mjög ungar en með fræðslu til bæði stelpnanna og ekki síður til strákanna, meðal annars um notkun smokka, fá þær tækifæri til að fresta barneignum. Unglingarnir fá smokka í smiðjunum en notkun þeirra kemur einnig í veg fyrir smit kynsjúkdóma.  

Í smiðjunum er boðið upp á nám í tölvu- og farsímaviðgerðum, rafvirkjun, fatasaum og fataprjóni, töskugerð, sápugerð, hárgreiðslu og förðun, eldamennsku og þjónsstarfi. Skipulagið er yfirleitt þannig að kennsla í iðngreinum er fyrir hádegi en boðið er upp á söng, íþróttir og jafningjafræðslu eftir hádegi. 

Eftir ársnám hafa unglingarnir lært það mikið að þeir geta komist í starfsnám í fyrirtækjum eða komið sér upp eigin sölu- eða viðgerðarbásum. Félagsráðgjafar UYDEL hafa milligöngu um starfsnámið og fylgja krökkunum eftir og athuga hvernig þeim reiðir af eftir námið. Við útskrift úr náminu fær unga fólkið sumt verkfæra- eða snyrtisett en þau sem leggja fyrir sig sauma fá saumavél til að afla sér tekna sem duga þeim til framfærslu. Gjafabréfin hér á síðunni eru táknræn og andvirði þeirra rennur til verkefnisins í heild, þar með talið til útskriftagjafanna.

Svona virka gjafabréfin

Þú velur gjafabréf og skrifar kveðju til viðtakanda þess

svona-b

Við sendum gjafabréfið til þín rafrænt eða prentum það fyrir þig

svona-c

Saman tryggjum við fólki tækifæri til betra lífs

Sögur úr starfinu

Previous
Next