Með framlagi þínu – hvort sem þú ert gefandi eða þiggjandi þessa gjafabréfs – gleður þú barn á jólum.
Á Íslandi leggur Hjálparstarf kirkjunnar ríka áherslu á að aðstoða fjölskyldufólk sem býr við kröpp kjör fyrir jólin svo það geti gert sér dagamun yfir hátíðirnar. Aðstoðin er fyrst og fremst í formi inneignarkorta fyrir matvöru en fólk getur einnig sótt sér notaðan fatnað og fær jafnvel aðgöngumiða í leikhús og/eða bíó og inneignarkort hjá vinsælum veitingastöðum meðal barna og unglinga. Þá fá foreldrar í félagslegri neyð einnig aðstoð svo börnin fái jólafatnað og jólagjafir.
Neyðaraðstoð vegna fátæktar á Íslandi
Á Íslandi veitir Hjálparstarf kirkjunnar fólki í félagslegri neyð efnislega aðstoð í samvinnu við presta, félags- og námsráðgjafa um land allt. Aðstoðinni er ætlað að svara skyndilegri neyð enda er það skylda stjórnvalda að tryggja framfærslu fólks í félagslegum vanda þannig að það fái lifað mannsæmandi lífi til lengri tíma.
Meginmarkmiðið með aðstoð er að grunnþörfum fólks sé mætt, að fjárhagslegir erfiðleikar ógni ekki heilsu fólks og takmarki ekki möguleika barna og unglinga til farsæls lífs. Faglegt mat félagsráðgjafa Hjálparstarfsins liggur til grundvallar efnislegum stuðningi sem veittur er án tillits til trúar- og lífsskoðana, þjóðernis, litarháttar eða kyns þeirra sem hans leitar.
Einstaklingsmiðuð nálgun og notendastýrð þjónusta eru lykilverkfæri félagsráðgjafanna sem leggja höfuðáherslu á að hlusta, ræða við og skilja einstaklingana sem til þeirra leita og vinna með þeim á forsendum þeirra sjálfra. Auk þess að veita ráð og efnislega aðstoð benda félagsráðgjafarnir fólki á úrræði í samfélaginu sem kunna að gagnast því við að komast út úr erfiðum aðstæðum.
Verðin á gjafabréfunum hér á síðunni eru táknræn en andvirði þeirra rennur til verkefnisins í heild, þar með talið til stuðnings við efnaminni foreldra svo þau geti glatt börn sín með gjöf undir tréð á jólum.